145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:40]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi nú ekki svarið alveg fullkomlega, hvort hv. aðstandendur frumvarpsins eru á þeirri skoðun að áfengissala muni aukast eða minnka verði frumvarpið að lögum, en ég gef mér að þeir vonist til þess að það verði ekki mikil aukning, hún verði helst engin, dragist jafnvel saman, sem væri þá þvert á alla reynslu og niðurstöður allra rannsókna sem gerðar hafa verið, mjög vísindalega gerðar og eru taldar upp m.a. í umsögnum landlæknisembættisins og fleiri góðum umsögnum sem bárust hér síðast.

En gefum okkur að neyslan muni aukast. Þá vil ég breyta spurningunni og spyrja hv. þingmann: Hvað má hún aukast mikið? Hvað þyrfti hún að aukast mikið til þess að hv. þingmenn mundu vilja falla frá frumvarpinu? Hvað mega langvinnir sjúkdómar, krabbameinstíðni, sykursýki, lifrarsjúkdómar, ofbeldi, m.a. ofbeldi gegn konum og börnum, og umferðarslys aukast mikið til þess að hv. flutningsmenn mundu falla frá frumvarpinu?