145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:47]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að svara í sambandi við þær yfirlýsingar sem landlæknisembættið og önnur félög hafa gefið. Ég ítreka enn og aftur að þau hafa ekki bent á það hvernig framkvæmd þessa frumvarps muni auka neysluna jafn mikið og vandamálin, sem þau telja að muni gerast, þau segja að rannsóknir sýni að aukið aðgengi muni auka neysluna. Ég hef bent á það að á sama tíma og unglingar drekka mun minna áfengi en áður hefur útsölustöðum áfengis fjölgað um 1.000% á Íslandi. Sala á áfengi hefur margfaldast og drykkja meðal unglinga dregist saman á sama tíma. Þau hafa aldrei getað sýnt fram á það hvernig þetta aukna aðgengi, sem þau telja frumvarpið fela í sér, mun auka neysluna ef hitt aukna aðgengið hefur ekki gert það. (Gripið fram í.)