145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:53]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa skýringu og að hjálpa mér að útskýra stöðu mála. Söluaukning á áfengi hefur farið fram í gegnum vínveitingahúsin sem hefur fjölgað um 1.000%. Á sama tíma hefur neysla meðal unglinga dregist saman. Ferðamönnum hefur fjölgað töluvert og fjölgun vínveitingahúsa er að stóru leyti út af fjölgun ferðamanna. Það er nákvæmlega það sem ég var að segja áðan, að seldum áfengislítrum mun fjölga af því að ferðamaðurinn verslar meira. Það verður mjög mikill mælingarvandi að mæla nákvæmlega hvort neysla íbúa landsins eykst eða dregst saman. Hitt er víst, að menningin breytist líka, þ.e. hvernig er drukkið, hvort það er mikil drykkja eða jöfn og þétt. ÁTVR er sjálft að stuðla að því að vínmenningin breytist, það sé drukkið meira af víni með mat og minna í ofneyslu (Forseti hringir.) í eitt skipti.