145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn á ný ætla ég að benda hv. þingmanni á að lesa skýrsluna frá landlækni um lítra á mann vegna þess að 7 lítra markinu var náð 2004 og það er enn í 7 lítrum 11 árum og 1 milljón ferðamönnum síðar. Ferðamenn hafa ekki áhrif á þá neyslu sem þarna er nema í litlum mæli, þeir versla í Fríhöfninni.

Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Mér sýnist á öllu að hann hafi ekki lesið frumvarpið. Hann sagði áðan að ríkið gæti eftir sem áður haft áhrif á verð áfengis eftir þessa breytingu. Þá vil ég benda hv. þingmanni á 21. gr. frumvarpsins þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Útsöluverð á áfengi er frjálst en óheimilt er að selja áfengi undir kostnaðarverði.“

Hvar kemur ríkið inn í það að bremsa af verðlagningu á áfengi þegar útsöluverð á áfengi er frjálst, hv. þingmaður?