145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[13:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það var varað við því í upphafi umræðunnar eða mælst til þess að hér yrði ekki haft í frammi neins konar málþóf. Spurningin er þessi: Er þetta málþóf af minni hálfu? Já, ég vil þæfa þetta mál þangað til hæstv. heilbrigðisráðherra kemur hingað í salinn og svarar málefnalega og efnislega spurningum sem beint er til hans. Þetta mál hefur verið kynnt sem þingmannamál en formaður Sjálfstæðisflokksins hefur jafnframt tekið það upp sem hluta af stefnumarkmiðum síns flokks. Ég hef vísað í yfirlýsingar sem gefnar hafa verið út í hans nafni og hæstv. heilbrigðisráðherra og langar einfaldlega til að fá upplýsingar frá hæstv. heilbrigðisráðherra, sem eiga að síðan að vera hluti af þessari umræðu. Mér finnst eðlilegt að gert verði hlé á umræðunni þar til hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) kemur til umræðunnar.

Ég vek athygli hæstv. forseta þingsins á því (Forseti hringir.) að þegar málið var áður tekið til umræðu voru þessar óskir fram bornar (Forseti hringir.) og alltaf hunsaðar af hálfu hæstv. ráðherra.