145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá verður maður að spyrja: Hvers vegna eykst unglinganeysla ekki? Hún hefur farið mjög mikið niður síðustu 15 árin og fyrir því eru margar ástæður, m.a. forvarnir. Það er vissulega líka heildstæð nálgun í því hvernig á að díla við slík mál sem er miklu stærri umræða en einfaldlega aðgengi.

Virðulegi forseti. Ég er hins vegar að benda á staðreyndir. Aðgengið hefur margfaldast og unglinganeysla á áfengi og ólöglegum vímugjöfum hefur dregist saman. Þetta eru staðreyndir. Það stenst einfaldlega ekki að aukið aðgengi að áfengi auki óhjákvæmilega neyslu unglinga. Það einfaldlega er ekki það sem við sjáum í tölunum á Íslandi í dag. Þetta hlýtur að vera flóknari spurning en það. Um það snýst málflutningur minn hér.

Þegar kemur að neyslu fullorðins fólks finnst mér það ekki jafn alvarlegt og þegar kemur að unglingum af þeirri einföldu ástæðu að ég trúi því ekki að sparnaður hjá ríkinu eða í heilbrigðiskerfinu sé forsenda þess að takmarka frelsi fólks til þess til dæmis að kaupa áfengi. Ég er ekki á þeirri línu. En þegar kemur að unglinganeyslunni er ég að benda á staðreyndir. Unglinganeyslan hefur dregist saman. Aðgengið hefur aukist. Það stemmir ekki við tilgátu hv. þingmanns eða rannsóknina.