145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:07]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að útskýra þetta aðeins betur. Það er alveg ljóst að til dæmis matvörukeðja með þriðjungsmarkaðshlutdeild á markaðnum sem flytur inn magnvöru í gámavís frá einhverju láglaunalandi gæti gert mjög hagstæð innkaup á magnbjór, segjum Krónubjór eða Bónusbjór, sem yrði seldur í miklu magni með hóflegri álagningu. Þarna færu flestir áfengislítrar í gegn og hugsanlega yrði verðið ekkert hærra en það er í dag á þessum magnbjór, hugsanlega lægra. Hins vegar yrði álagningin á öðrum sérvínum sem væru seld í minna magni að vera hærri en 18%, það er alveg ljóst. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður þekkir mikið til smásölu eða verslunarreksturs en þetta eru lögmálin ef maður ætlar að hámarka hagkvæmnina í rekstrinum. Við getum séð hvernig þetta er með aðrar vörur í sömu búðum, það gilda sömu lögmál um þessa vöru.