145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ófrelsið er ekki fólgið í núverandi fyrirkomulagi. Ófrelsið er fólgið í því að vegna pólitískrar kreddu og hræðslu við að horfa til skynsemisraka, en fylgja ekki einhverju sem menn telja vera framfarasinnuð viðhorf, þá þora menn ekki að gera það sem skynsamlegt er og gott fyrir neytendur, ríkiskassann og lýðheilsusjónarmið. Það er ófrelsi að fylgja pólitískri kreddu. Svo halda menn að þeir séu fulltrúar framfara með þessum hætti. Þetta eru afturhaldssöm sjónarmið, íhaldssöm og afturhaldssöm sjónarmið. Alls staðar í Evrópu og vestan hafs horfa menn til annarra þátta, til þess hvað hægt er að gera til að draga úr sjúkdómum og böli sem tengist reykingum, sem tengist mikilli áfengisneyslu. Þá horfa menn til þessa. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og ríki sem heyra undir hennar vængi (Forseti hringir.) öfunda okkur af því fyrirkomulagi (Forseti hringir.) sem menn eru núna að kappkosta að slátra.