145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef heyrt þau sjónarmið líka úr þessum ranni. Staðreyndin er sú að þegar við tökum afstöðu í þessu máli þarf að vega og meta kosti og galla. Í þeim efnum eru alls kyns víddir og núansar, að sjálfsögðu. Ég stilli mér upp með heilbrigðisyfirvöldum og með neytandanum. Staðreyndin er sú að þeir sem vilja nálgast tilteknar víntegundir, t.d. sjaldgæfar víntegundir, fá þær afgreiddar í ríkinu. Þeir fá óskum sínum framfylgt í ríkinu. En ég veit ekki hvort þeir munu fá þær í Hagkaup, Samkaup, Bónus eða hvað það nú heitir, í þessum stóru keðjum, ég er ekki viss um það. Þar verður bara gert það sem selst mest og kannski verður gott úrval þar sem neytendur eru fjölmennir, síður þar sem fámenni er, en fyrir neytendur (Forseti hringir.) yrði þetta ekki til hagsbóta, síður en svo.