145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þekki ég sjónarmið hv. þingmanns tiltölulega vel enda hef ég heyrt þau mjög oft, við höfum oft rætt þetta hérna. Sjálfsagt þekkir hann mín temmilega vel en ég hef áhuga á öðrum þáttum málsins en einfaldlega lýðheilsumálum og frelsismálum og því um líku, og það er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga. Það kemur fram í frumvarpinu að hugmyndin er sú að sveitarfélögin fái að ákveða sjálf og geti sett eigin takmarkanir á opnunartíma en hann skal vera milli níu og átta yfir daginn. Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna þetta sé. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem ég veit að er á móti frumvarpinu og þar af leiðandi þessari tilteknu klausu, hvernig hann líti á þá hugmynd að sveitarfélögin fái aukið svigrúm til að ákveða hvernig þessum málum er háttað almennt. Ég sé nefnilega ekki hvers vegna það þarf að vera samræmd stefna yfir allt land. Ég veit að hv. þingmaður er enginn sérstakur aðdáandi Bandaríkjanna, en eitt er gott við þau, þar geta fylkin keppt í frelsi, geta keppt um það hver sé rétta lausnin.