145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki tekið þátt í þessari umræðu síðast þegar málið var flutt. Mér hefur fundist ég hafa vandræðalega litla skoðun á þessu máli sem er mjög umdeilt, eins og við heyrum hér í þingsal. Ég held að það verði hvorki dauði né djöfull ef þetta frumvarp fer í gegn en ég sé heldur ekki að það séu einhver stórkostleg vandamál við kerfið eins og það er í dag. Ég get þó viðurkennt að það má setja stórt spurningarmerki við að ríkið sinni þessari þjónustu, því að þetta er vissulega þjónusta. Mér finnst líka svolítið sérstakt að vera í þeirri stöðu að við þingmennirnir 63 eigum að taka afstöðu í málinu fyrir hönd allrar þjóðarinnar, í máli sem meira og minna allir hafa skoðanir á og margir mjög sterkar. Ég upplifi varla að ég hafi umboð kjósenda minna til að taka þessa afstöðu. Ég var aldrei spurð út í þetta í kosningabaráttu, þetta kom í raun aldrei til tals þannig að kjósendur mínir vita ekkert hvar ég stend í þessu máli og ég veit í rauninni ekkert hvaða afstöðu þeir hafa. Af því að við erum oft að tala um að við viljum færa aukið vald til þjóðarinnar og að þjóðin komi meira að ákvörðunum þá finnst mér þetta vera dæmi um mál þar sem við ættum að spyrja þjóðina. Það er stórt skref ef sala á áfengi verður gefin frjáls og við förum að setja áfengi í verslanir. Vill þjóðin það eða eiga 63 þingmenn að taka afstöðu? Ég kasta þessu fram, ég fer í 1. umr. svolítið til að hugsa upphátt. Frá því að þetta mál kom fram hef ég þegar ég hitti annað fólk, vini mína, mjög ítrekað spurt hvað þeim finnst um þetta mál, bara til að fá að heyra það. Ég spyr vini mína, sem eru úr öllum flokkum, hvað þeim finnst og mér finnst almennt ekki endilega vera stemning fyrir þessu. Mér finnst mjög margir spyrja hvort við þurfum eitthvað að vera að breyta. Það er samt sem áður oft gott að velta fyrir sér af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Mér finnst að við ættum að vera opin fyrir því að það er alveg hægt að gera hlutina öðruvísi og þess vegna ætla ég ekki að afskrifa þetta mál.

Það er spurning hvort ríkið eigi að reka áfengisverslanir. Ég get séð nokkrar sviðsmyndir, m.a. að öðrum verði heimilt að selja áfengi og það verði gert í sérstökum verslunum og strangar reglur settar um það. Það eru dæmi um það í öðrum löndum. Þá erum við ekki að tala um að þetta fari í matvöruverslanir heldur að einhver sem hefur áhuga á að selja vín geti opnað verslun og að skilyrði verði sett, það megi ekki vera fleiri en svo og svo margar vínbúðir, einhvern veginn þarf að tryggja að þetta dreifist jafnt þótt það geti vissulega verið flókið. Það vekur svo auðvitað upp spurninguna um það hvernig þjónustunni við landsbyggðina yrði háttað. Það er aðkallandi spurning. Mér finnst þetta alveg koma til greina. Einhverjir geta sagt: En við verðum þá af þeim hagnaði eða arði sem ÁTVR skilar, sem er um 1,5 milljarðar, af hverju ekki að hirða það í ríkiskassann? Ég kaupi ekki alveg þau rök vegna þess að það má ná þeim peningum af neytendum með öðrum hætti. Sem dæmi má hækka virðisaukaskatt á áfengi, því að ef áfengi er orðið svo dýrt verða verslanirnar væntanlega að lækka álagninguna á móti, ef áfengisgjöldin og virðisaukaskattur á áfengi er farinn að verða umtalsverður. Mér finnst það að ÁTVR nái 1,5 milljörðum sem það geti skilað ríkinu í arð ekki réttlæta að ríkið stundi áfengissölu. Það er hægt að ná þeim peningum á ýmsan hátt og má spyrja, eins og gert hefur verið hér: Er það vegna tóbaks eða áfengis?

Það eru vissulega neytendur sem borga þá upphæð sem rennur aftur í ríkiskassann, þannig að það eru leiðir í því máli. Síðan eru það áhrif á lýðheilsu og ekki er hægt að horfa fram hjá umsögnum frá landlæknisembættinu, Læknafélaginu, Félagi hjúkrunarfræðinga, umboðsmanni barna og fleirum. Auðvitað verðum við að lesa þær umsagnir og taka þær alvarlega. Við vitum alveg að aukið aðgengi að áfengi mun auka neysluna. Spurningin er hvort unglingar fari að drekka í meiri mæli, vegna þess að við höfum náð góðum árangri þegar kemur að því að draga úr unglingadrykkju, eða hvort þeir sem fá sér einn bjór á viku fari að drekka tvo bjóra, sem er ekki mjög alvarlegt. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig neyslan mundi aukast en ég held við getum gengið út frá því vísu að hún muni aukast. Ég velti því fyrir mér, og er aftur að hugsa upphátt, að fá einhvers konar þjóðarvilja í þetta mál. Ef við ákveðum að taka þetta skref, og mér finnst það stórt skref að setja áfengi í verslanir, kæmi þá til greina að taka það í minni skrefum? Við gætum sagt: Byrjum á að setja bjór í ákveðnar deildir og dokumenterum mjög vel hvaða áhrif það hefur. Gerum tilraun sem er ekki stærri en það að við getum tekið skrefið til baka ef við sjáum að bjórneysla þrefaldast, af því að það er ekki endilega það sem við viljum. Eða ef við sjáum að unglingadrykkja eykst við breytinguna og þar fram eftir götunum.

Mér finnst við stundum vera svolítið hrædd við að prufa eitthvað af því að þá getum við aldrei farið til baka. Það minnir mig á mál okkar í Bjartri framtíð um klukkuna þar sem við höfum sagt: Prufum, breytum klukkunni. Metum áhrifin á lýðheilsuna og hættum ef í ljós kemur að enginn getur stundað golf seinnipartinn af því það er orðið svo dimmt. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé leið eða hvort þetta sé rugl í mér, ég átta mig ekki á því. Mér finnst við vera að ákveða að ef við gerum eins og allar aðrar þjóðir og seljum áfengi í verslunum muni það hafa skelfilegar afleiðingar. Við vitum það ekkert og það getur vel verið að okkur sé treystandi til þess. En ég mundi vilja fá miklu skýrari þjóðarvilja og ég mundi vilja sjá þetta gert í miklu varfærnari skrefum og ég hefði gjarnan viljað sjá að samhliða þessu frumvarpi hefði verið lögð fram öflug áfengisstefna. Þá meina ég áfengisstefna sem miðar að því að við minnkum neyslu á áfengi. Ég held að við séum sammála um að áfengisneysla sé vandamál. Auðvitað eru langflestir sem neyta áfengis í hófi en mér finnst oft heldur mikil meðvirkni til staðar og kannski meiri en þegar við upplifum einhverja aðra hegðun sem hefur mjög neikvæð áhrif á viðkomandi og aðra. Mér finnst við oft tipla á tánum í kringum vandamál sem tengjast áfengisneyslu og ég held að við ættum að gera mun betur í því. Fólk talar um hóflega neyslu en ég er oft ekkert sammála því hvað sé hófleg neysla. Hvað er hófleg áfengisneysla? Mér finnst það vera önnur umræða, en ekki síður mikilvæg, hvernig við drögum úr áfengisneyslu. Ég held að það sé þörf á því á Íslandi.

Ég ætla að vera opin fyrir þessu máli. Mér líður eins og að ef málið færi í atkvæðagreiðslu núna mundi ég sitja hjá. Mér finnst ég ekki geta stutt það en ég er ekki brjálæðislega á móti því heldur. Mér finnst það góð hugmynd að gera þetta í minni skrefum og geta þá sagt: Nú eru liðin fimm ár síðan bjór fór í verslanir og niðurstaðan er sú að bjórneysla hefur aðeins aukist lítillega, unglingadrykkja hefur ekki aukist, hún hefur minnkað. Ef við sæjum einhverja svoleiðis niðurstöðu gætum við kannski tekið næsta skref og þar fram eftir götunum.