145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:58]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, hann er okkur ókeypis vegna þess að reksturinn stendur undir sjálfum sér.

Ef menn hafa viljað hæða þá sem eru taldir afturhaldssamir í þessum efnum þá vísa menn gjarnan til umræðunnar um bjórinn á sínum tíma, á 9. áratugnum, og varnaðarorða sem þá komu fram um að bjórinn mundi auka áfengisneyslu, það væri alveg fráleitt. En það hefur nú gerst. Ég ætla að vitna í grein eftir Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðing úr Fréttablaðinu 17. september. Þar segir, með leyfi forseta:

„Árið áður, 1988, var neysla hvers Íslendings (18 ára og eldri) af áfengi 4,53 lítrar. Árið 2007 náði neysla áfengis ákveðnu hámarki eða 7,53 l á hvern einstakling. Á síðasta ári var áfengisneysla 7,18 l á hvern Íslending.“

Dreifingarmagnið og úrvalið að þessu leyti þegar bjórinn kom til sögunnar hefur áhrif á neysluna og hefur aukið (Forseti hringir.) hana. Þetta er bara staðreynd.

Ég vil spyrja að lokum hv. þingmann: Er það eitthvert vandamál eins og þetta er núna? (Forseti hringir.) Er þetta eitthvert brýnt vandamál sem þarf að leysa?