145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:03]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Mér finnst það vera mjög góður punktur hjá hv. þingmanni að einmitt sveitarfélögin hafi sjálf meira vægi. Ég get alveg tekið undir það.

Varðandi það sem hefur verið talað hérna um, þ.e. arðinn sem ÁTVR greiðir út, þá er auðvitað mjög auðvelt fyrir einhvern aðila sem er með einkaleyfi á mjög vinsælli vöru að standa undir rekstrinum og vel það. Það segir sig náttúrlega sjálft. Ég er alveg sannfærð um að álagningin hjá ÁTVR hlýtur að vera þokkalega há. Hún þarf ekki einu sinni að vera mjög há vegna þess að það eru engir samkeppnisaðilar og það kaupa allir áfengi þar. Ef menn vilja ná þessum peningum þá hækka þeir einfaldlega annaðhvort virðisaukaskattinn eða áfengisgjöldin og pína þá í rauninni verslunina til þess að lækka álagninguna á móti. Það er bara þannig. Þessum peningum getum við náð af neytendum með alveg 100 leiðum. Við þurfum ekki að vera með ríkisfyrirtæki til að standa í þessum rekstri til að gera það. Það er alla vega mín sannfæring.