145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:14]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Ég vil byrja ræðuna á því að segja að ég hef myndað mér skoðun á þessu frumvarpi, ég gerði það þegar það var flutt í fyrra og sú skoðun mín hefur ekki breyst. Ég er alfarið á móti frumvarpinu og ástæðan er meðal annars sú að mér er mjög umhugað um það forvarnastarf sem unnið hefur verið á undanförnum árum og þann árangur sem við höfum náð í forvarnamálum. Einnig er ég áhyggjufull vegna lýðheilsumála og sjónarmiða neytandans, m.a. á minni stöðum á landsbyggðinni þar sem ÁTVR-búðirnar starfa og bjóða upp á verulega mikið og gott úrval. Ég tel að þeir sem búa í dreifðari byggðum landsins muni ekki hafa sama aðgang að þessum vörum og áður og það verði minna jafnræði meðal íbúa landsins.

Ég sat í hv. allsherjar- og menntamálanefnd í fyrra þegar umrætt frumvarp var til afgreiðslu. Með leyfi hæstv. forseta vil ég fara örlítið í gegnum þær umsagnir sem bárust nefndinni og viðra þær í tengslum við atriði sem koma fram í frumvarpinu.

Barnaheill sendi umsögn og benti á rannsóknir um að aukið aðgengi að áfengi muni leiða til aukinnar neyslu, að aukin áfengisneysla sé líkleg til að hafa slæm áhrif á líf barna, ekki eingöngu barna sem verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisneyslu foreldra sinna eða annarra forsjáraðila heldur líka barna og ungmenna sem freistast til áfengisdrykkju vegna auðveldara aðgengis. Það er stóri punkturinn sem ég hef áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af auknu aðgengi og horfi þar á erlendar rannsóknir sem sýna okkur fram á það margar hverjar að aukið aðgengi að áfengi auki áfengisneyslu. Við höfum unnið mikið og gott forvarnastarf undanfarin ár og í umsögn Barnaheilla kemur skýrt fram að þau telja þeim árangri sem náðst hefur stefnt í hættu ef frumvarpið verður að lögum.

Umsagnir bárust frá embætti landlæknis og þar er talað um alþjóðlegar rannsóknir sem benda til þess að afnám einkasölu áfengis muni leiða til aukinnar heildarneyslu. Enn fremur kemur fram í þeim umsögnum að rannsóknir sýna að samhliða aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður vegna áfengistengdra vandamála. Embættið bendir meðal annars á skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þar sem þetta kemur fram. Þarna komum við svolítið að þeim punkti sem ég horfi líka til af því að fylgjendur frumvarpsins hafa mikið talað um að við náum einhverri hagkvæmni í gegnum ríkissjóð með því að minnka þann kostnað sem fer í rekstur vínbúða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. En ef við lítum til þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið og vitnað er í m.a. í þessum umsögnum þá tel ég að þrátt fyrir að við næðum kannski einhverri hagkvæmni í rekstri við það að leggja niður búðirnar mundi samfélagslegur kostnaður aukast, það kæmi bara niður á öðrum stað í heilbrigðiskerfinu. Það kemur meðal annars fram í gögnum frá landlækni.

Í rannsóknum sem landlæknir bendir á kemur fram að áfengi getur valdið líkamlegum, andlegum og félagslegum skaða vegna eituráhrifa á líkamann vegna vímu og vegna fíknar. Meginskýringin á því samfélagslega tjóni sem verður af völdum áfengis er víman sem það hefur í för með sér, einnig vegna ofbeldis, umferðarslysa og annarra slysa sem rekja má til áfengisneyslu. Ef við grípum aðeins niður í frumvarpið þá kemur fram að í dag eru útsölustaðir ÁTVR 49 talsins víðs vegar um landið en Kaupásverslanirnar, Hagaverslanirnar og hvað þetta heitir allt saman eru alls 114 eins og talað er um í frumvarpinu þannig að þarna yrði heldur betur fjölgun á útsölustöðum. Í frumvarpinu kemur einmitt fram í kaflanum þar sem rætt er um áhrif á neyslu að ekki sé ólíklegt að fjölgun útsölustaða muni hafa áhrif í þá átt að auka áfengisneyslu. Þetta er það sem maður staldrar við vegna þeirra áhrifa sem þessi mál hafa á lýðheilsu og forvarnastarf. Við erum að tala um áfengi sem er engin venjuleg neysluvara og við verðum alltaf að hafa það í huga þegar við ræðum um þessi mál og veltum þeim fyrir okkur.

Í rannsóknum sem landlæknisembættið bendir á kemur fram að 5,9% dauðsfalla í heiminum megi rekja til áfengis. Hlutfallið er hæst í Evrópu eða 13,3% þar sem áfengisneysla er mest og á sama hátt má rekja 5% af sjúkdómum og slysum til áfengisneyslu. Þetta sýnir okkur að þarna er ákveðin fylgni á milli. Samkvæmt þeim skýrslum sem landlæknisembættið bendir á er sterkt samband milli óhóflegrar áfengisneyslu og ofbeldis af ýmsum toga. Þar er nefnt meðal annars heimilisofbeldi, vanræksla, nauðganir og ofbeldi meðal ungmenna.

Þar sem ég er ein af þeim hv. þingmönnum sem eiga sæti í velferðarnefnd þingsins þá langar mig að fara aðeins yfir umsögn velferðarnefndar Alþingis sem skilað var til hv. allsherjar- og menntamálanefndar þegar frumvarpið var þar til afgreiðslu á síðasta þingi. Í umsögn hv. velferðarnefndar Alþingis kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Áfengisneysla er þriðji stærsti áhættuvaldur fyrir heilsu mannkyns samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Áfengi veldur skorpulifur og ýmsum tegundum krabbameina í meltingarvegi frá munnholi niður í endaþarm. Þá eykur áfengisneysla tíðni brjóstakrabbameins hjá konum. Heilsufarsleg áhrif áfengis eru einnig víðtæk þegar litið er til andlegra og líkamlegra afleiðinga ofbeldis og slysa af völdum áfengisneyslu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sendi landlæknisembættinu bréf í tilefni af framlagningu frumvarpsins og hvatti til þess að Íslendingar héldu fast við stefnu sína um einokun ríkisins enda dregur slíkt úr neyslu. Bent er á að áfengisneysla á Íslandi sé minni en að meðaltali í Evrópu og að mikill árangur hafi náðst í að draga úr drykkju ungmenna.“

Þarna vil ég staldra aðeins við því mig langar bara að segja það hér í ræðu minni að áður en ég tók sæti á Alþingi vann ég mikið innan æskulýðsstarfseminnar. Ég starfaði sem grunnskólakennari og í þeim störfum tekur maður sjálfkrafa þátt í miklu forvarnastarfi, ég hef verið í landshlutastjórn Heimilis og skóla, sinnt þar ýmsum forvarnamálum og auðvitað sem foreldri hef ég einnig tekið þátt í foreldrarölti einstaka sinnum. Við höfum náð gríðarlega góðum árangri. Í frumvarpinu er sagt að hærri prósenta forvarnagreiðsla muni fara í forvarnasjóði, en það segir einnig á bls. 5, með leyfi forseta: „Lýðheilsusjóður skal leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna næstu tvö ár eftir gildistöku laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak …“ — Í tvö ár. En hvað gerist eftir það? Maður veltir því fyrir sér.

Í gögnum frá sænsku lýðheilsustofnuninni sem hv. velferðarnefnd Alþingis vitnar einnig í kemur fram að stofnunin fól árið 2008 sænskum og alþjóðlegum sérfræðingum í áfengisrannsóknum að gera rannsókn á áhrifum þess fyrir sænskt samfélag ef ríkiseinokun á áfengissölu yrði afnumin og sala áfengis yrði leyfð í matvöruverslunum. Niðurstöðurnar voru sláandi. Áfengissala mundi aukast um 37,4% og leiða til hærri dánartíðni, aukins ofbeldis, fjölgunar þeirra sem aka undir áhrifum áfengis og gríðarlegrar fjölgunar veikindadaga.

Nemendur í Háskólanum á Bifröst unnu rannsókn síðasta vetur og héldu jafnframt opinn fund um hana ef ég man rétt og komu fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar frumvarpið var í þinglegri meðferð hjá nefndinni. Í þeirri rannsókn kemur fram að sömu áhrifa mundi gæta hér á landi og sænska lýðheilsustofnunin komst að. Hér í umræðunni hefur oft verið talað um að við eigum ekki alltaf að vera að horfa til útlanda og hvað hefur verið að gerast þar en hér erum við með íslenska rannsókn frá nemendum við háskóla hér á landi sem sýnir að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu sem leiðir til fjölþættra samfélagslegra vandamála.

Tíminn flýgur ótrúlega hratt. Maður heldur að maður hafi alltaf endalausan tíma en ég verð að nefna aðeins áfengisstefnu stjórnvalda. Ríkisstjórnin sem starfar nú, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, setti fram stefnu í áfengis- og vímuvörnum fram til ársins 2020 og hún var samþykkt í desember 2013, um hálfu ári eftir kosningar. Ein af megintillögunum þar er sú að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum. Ég get bara ekki skilið hvernig frumvarpið sem við ræðum um hér á samleið með þeirri stefnu vegna þess að meiri hluti þeirra þingmanna — við getum bara sagt að þetta mál er forgangsmál þingmanna Sjálfstæðisflokksins og það er heilbrigðisráðherra sem er einn af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem setur fram þessa tillögu í áfengisstefnunni ásamt allri ríkisstjórninni. Ég get ekki skilið hvernig þetta gengur upp en kannski þarf einhver að útskýra það fyrir mér. Ein af megintillögunum í stefnunni er sú að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum og það á að gera með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis. Þessi stefna var samþykkt af ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins eins og ég sagði áðan. Einnig leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á eflingu lýðheilsu og veitir forsætisráðherra sérstakri ráðherranefnd um lýðheilsumál forustu. Þar eru mörg góð verkefni, ég hef sannarlega orðið vör við það. Í tengslum við þá nefnd starfar m.a. sérstök verkefnisstjórn á vegum heilbrigðisráðherra sem leggur áherslu á heilsueflandi samfélag.

Mér sýnist ég komast yfir eitt atriði í viðbót en það er umsögn frá umboðsmanni barna sem ég ætla að grípa aðeins niður í, með leyfi forseta. Umboðsmaður barna óttast að ef sala áfengis verði leyfð í matvöruverslunum muni það auðvelda verulega möguleika barna og ungmenna til að nálgast áfengi. Nú förum við auðvitað öll og þið sem hlustið heima oft í matvöruverslanir og alla vega í minni heimabyggð eða í þeim matvöruverslunum sem ég versla oftast nær í er meiri hluti þeirra sem afgreiða oft fyrrverandi nemendur mínir sem eru annaðhvort í efri bekkjum grunnskóla eða fyrstu bekkjum framhaldsskóla. Samkvæmt frumvarpinu mega ekki yngri en 18 ára afgreiða áfengi. Maður sér það oft, það er kannski einhver á undan manni á kassanum að versla tóbak og börnin eru hlaupandi um allt að reyna að finna einhvern sem hefur aldur til að afgreiða einstaklinginn eða setja sígarettupakkann í gegnum skannann. Ég skil ekki alveg hvernig þetta á að fara saman. Börn yngri en 18 ára mega afgreiða en maður þarf að vera tvítugur ef maður ætlar að kaupa áfengi. Af hverju er þetta rof þarna á milli? Af hverju þarf ekki að vera búinn að ná áfengiskaupaaldri þegar maður má selja áfengið? Þetta þarf líka að útskýra fyrir mér.

Umboðsmaður barna segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Auk þess er hætta á að aukinn sýnileiki áfengis muni stuðla að jákvæðum viðhorfum til áfengis og hvetja til aukinnar neyslu meðal unglinga. Slíkt getur ekki talist í samræmi við hagsmuni barna og ungmenna, enda hefur áfengi skaðleg áhrif á líkamlegan og andlegan þroska þeirra. Þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að því yngra sem fólk er þegar það byrjar að neyta áfengis því líklegra er að það þrói með sér áfengisvanda síðar á ævinni. Áfengi er algengasti vímugjafinn hér á landi en á undanförnum árum hefur dregið verulega úr áfengisneyslu meðal unglinga, meðal annars vegna öflugs forvarnastarfs,“ — sem ég kom inn á fyrr í ræðu minni — „og takmarkaðs aðgengis að áfengi og þeirri aðhaldsstefnu sem ríkir hér á landi.“

Ég á helling eftir af ræðunni en ég held að ég þurfi jafnvel að fara í aðra ræðu síðar í þessari umræðu.