145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:30]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég náði ekki alveg síðasta hlutanum en hv. þingmaður spyr mig bara aftur á eftir.

Hv. þingmaður spyr hvort menning þjóðarinnar hafi eitthvað að segja varðandi þessa þætti. Ég get ekki svarað því en mér finnst alla vega full ástæða til að horfa til þess hvernig hlutirnir hafa gengið erlendis og ég tel að við séum ekkert frábrugðin í þeim efnum. Vísa ég þá í þær rannsóknir sem Barnaheill, umboðsmaður barna, landlæknir og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vísa til.

Varðandi frítt aðgengi að áfengi í veislum og á öðrum viðburðum hefur það örugglega áhrif á ungmenni okkar og aðra, en ég tel samt að við eigum ekki að auka aðgengið enn frekar. Ég tel að við eigum ekki að fara úr öskunni í eldinn í þeim málum. Við eigum frekar að reyna að horfa til þess sem vel hefur tekist og halda því áfram.