145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:32]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar lýðheilsu, stefnu og allt það stendur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einna fremst varðandi samfélagslega ábyrgð og stefnu í samfélagslegri ábyrgð og talar mikið um forvarnir o.fl. Það er mikið talað um þetta í mannauðsfræðum og kennslu í þeim þáttum þar sem ég hef heyrt til. Auðvitað er svolítill tvískinnungur í því út af vörunni sem hún er að selja en þeir reyna alla vega að vera mjög framarlega á því sviði og eru mjög þekktir fyrir það og hafa hlotið viðurkenningar fyrir það hversu framarlega þeir standa þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð.

Mig minnir að vínbúðirnar séu í dag 49, voru 39 áður, en samkvæmt þessu frumvarpi munu útsölustaðirnir verða að minnsta kosti 110–120. Ég tel að góður árangur hafi náðst vegna þess öfluga foreldrastarfs og forvarnastarfs sem hefur verið víða.