145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir ræðuna. Ég hef einhvern tíma sagt það áður að það er svolítið bagalegt við þingsköp Alþingis þegar maður getur aðeins átt í samtali við einn hv. þingmann í einu. Stundum væri gaman að geta blandað fleirum inn í þá umræðu.

Það kom greinilega fram í ræðu hv. þingmanns hér áðan að hún hefur kynnt sér þær umsagnir og þau gögn sem fram komu á síðasta þingi alveg í þaula. Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann hvort hún telji einhverja ástæðu fyrir því að ekki sé hægt að heimfæra allar þær rannsóknir sem koma til dæmis fram í samantekt frá landlækni upp á aðrar Vestur-Evrópuþjóðir, (Forseti hringir.) meira að segja aðrar Norðurlandaþjóðir, hvort það sé einhver ástæða (Forseti hringir.) fyrir því af hverju við ættum ekki að geta heimfært það upp á okkar samfélag.