145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekkert mál, ég skal reyna að útskýra þetta betur. Hér færa menn oft að því rök að þetta hafi svo neikvæð áhrif fyrir neytendur og menn nefna oft þetta úrval úti á landi, sér í lagi þar sem markaðurinn er kannski ekki nógu stór til að réttlæta 150 tegundir af bjór. Það sem ég hef hins vegar tekið eftir, alla vega meðal þess fólks sem ég umgengst, er að margir eiga sér uppáhaldsbjór og kaupa hann kannski í meira magni en ef þeir ættu engan uppáhaldsbjór, þ.e. ef þeir hefðu bara úr að velja þremur eða fjórum tegundum sem væru ekki það sérstakar, og ef ekki væri hægt að spyrja kaupmanninn hvort hann gæti keypt inn eitthvað sem væri viðkomandi meira að skapi, þá mundi hann væntanlega drekka minna.

Það sem ég tek eftir er að þessi rök fyrir því að frumvarpið gangi á hagsmuni neytenda að þessu leyti eru rök sömu hv. þingmanna og eru á móti frumvarpinu af lýðheilsuástæðum. Ráðgátan sem mér tekst ekki að leysa er sú hvers vegna sama fólkið er á móti frumvarpinu á forsendum lýðheilsu og er á móti því á þeim forsendum að það komi sér illa fyrir neytendur gagnvart möguleikum neytenda á úrvali og aðgengi að áfengi.