145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, þetta var mjög skýr spurning. (Gripið fram í: Það eru tvö sem skilja ekki spurninguna.) Já, við erum tvö.

Það er þannig að vínbúðir víða um land eru með mjög mikið framboð og ef einstaklingar vilja aðra tegund af bjór — ég þekki það nú vel frá eiginmanni mínum — er gott að geta farið þangað og beðið um þá tegund. Ef einhver tegund er ekki til þá er ekkert mál að fá hana. Auðvitað vill maður að fólk hafi jafnræði um þessa þætti. Litli kaupmaðurinn, segjum bara á Þingeyri eða annars staðar, mun ekki hafa sömu möguleika á vöruúrvali og annar. Þetta er um jafnræðissjónarmiðið, maður er hlynntur því að aukið úrval sé og gott úrval í vínbúðum því að þar er sérverslunin með sérþekkingu og sterka samfélagslega ábyrgð. Einstaklingar sem eiga við erfiðleika að etja fara kannski ekki inn í vínbúðina í staðinn fyrir að labba fram hjá vöruhillum fullum af áfengi í Bónus þegar þeir fara að kaupa sér kjötbollur eða eitthvað.