145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, eftirlit og aðhald skiptir máli, en það kemur fram í frumvarpinu að það er ekkert verið að hvika frá því. Ég sé ekki ástæðu til að vantreysta versluninni til að fara að settum reglum. Ég væri til að mynda til í það sem meðflutningsmaður þegar frumvarpið fer til nefndar að skoða afgreiðslualdurinn, sem er 18 ára samkvæmt frumvarpinu, að hækka hann og slík atriði. Við eigum ekkert að gefa eftir í því.

Umsagnirnar sem komu fram síðast þegar málið var til umfjöllunar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd skiptust að meginefni til í tvö atriði, annars vegar lýðheilsusjónarmið og hins vegar viðskiptasjónarmið. Í þessari umræðu sakna ég örlítið umræðu um þjóðhagslegan sparnað. Þegar við veltum fyrir okkur lýðheilsusjónarmiðum tengjum við rannsóknir og sjúkdóma í umræðunni, það er rétt. Hins vegar skipta margar aðrar breytur verulegu máli. Til dæmis eru mikil tengsl á milli tekna og áfengisneyslu. Áfengisdauði er algengari eftir því sem tekjur eru hærri. Ég sakna þess að við ræðum miklu fleiri breytur í þessu samhengi.

Talandi um þjóðhagslegan sparnað, veltan hjá áfengisversluninni er í kringum 28 milljarðar. Eigið fé bundið er um 6 milljarðar. Við mundum losa um 6 milljarða sem við til að mynda gætum forgangsraðað í heilbrigðiskerfið. Hvað segir (Forseti hringir.) hv. þingmaður um að spara og forgangsraða í ríkisrekstri?