145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði hér síðast, þ.e. að menn ætli að borga sig frá vandanum. Ef hugur stendur til þess að auka framlög til forvarna er það alltaf hægt. Það er hægt að gera það með margs konar tekjuöflun í gegnum ríkissjóð. Það þarf ekki endilega að gerast með þessu frumvarpi.

Eins og ég rakti hefur komið fram og verið stutt með ítarlegum skýrslum, m.a. frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, að við höfum besta fyrirkomulagið. Dyggur talsmaður þess er Siv Friðleifsdóttir sem kom þessari skýrslu til mín á sínum tíma, sem varð til þess að ég las skýrsluna ansi vel fyrir síðustu umræðu um málið. Ég hefði viljað sjá flutningsmenn lesa skýrsluna betur því að það er ekkert sem styður við þetta frumvarp og það er barnaskapur að halda að hægt sé að snúa aftur.

Við erum með talsmenn barna á þingi, þverpólitískan hóp þingmanna. Ég vona svo sannarlega að sá hópur spyrni við fótum hér, því að við vorum hvött til þess á fundi í fyrradag með aðilum sem komu til okkar frá Barnaheillum og UNICEF og fleirum, sem sátu með okkur á fundi, að standa í fæturna gagnvart þessu frumvarpi með börn og ungmenni í huga. Mér finnst það vera meira forgangsmál en aðgengi fullorðins fólks að brennivíni. Ég held að það geri ekkert til þótt fullorðið fólk þurfi að hafa fyrir því að ná sér í áfengi, miklu frekar en að fórnað verði þeim árangri sem við höfum náð.