145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Frelsi fylgir ábyrgð. Ein af rökunum fyrir því að ríkið hafi þessa sölu á hendi eða hafi einkarétt á henni er að ríkið og heilbrigðiskerfið taki við afleiðingum áfengisvandans, hvort sem við teljum að það sé einkamál hvers og eins eða samfélagsleg ábyrgð að takast á við áfengisbölið sem vissulega er til staðar. Með miklum forvörnum hefur dregið úr því. Við skulum ekki vanmeta það. En eiga þá ekki þeir einkaaðilar, sem klæjar í fingurna að græða á áfengisböli annarra, að taka meiri ábyrgð á því að reka heilbrigðiskerfið? Hvar kemur sá hluti inn í frumvarpið, þ.e. einkaaðila sem koma til með að njóta hagnaðarins af sölu áfengis, hvar kemur ábyrgðarhluti þeirra inn í það að þeir taki við þeim vanda sem ríkið annars tekur á móti gegnum heilbrigðiskerfið í framtíðinni? Ég vil gjarnan heyra viðbrögð hv. þingmanns við því.