145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:36]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að heilbrigðiskerfið sé í dag að taka við rosalega miklum vanda vegna áfengis þrátt fyrir þessa tilhögun mála. Ég er alveg viss um að hægt er að stilla af þær skatttekjur og annað með þessu breytta fyrirkomulagi þannig að þeir fjármunir ættu alla vega ekki að minnka sem geta runnið í heilbrigðiskerfið vegna þessa vanda. Ef eitthvað er teldi ég líklegt að með því mætti setja meiri pening í forvarnir og þá víðtækari forvarnir og fjölbreyttari meðferðarúrræði, því að það er eitt sem ég tel vanta hvað mest í íslenskt samfélag í dag, þ.e. fjölbreyttari meðferðarúrræði, sérstaklega fyrir konur. Ég mundi fagna því ef því væri bætt við inn í frumvarpstextann.