145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum alveg á sömu skoðun af nákvæmlega sömu ástæðum. Hv. þingmaður kom jafnframt inn á þetta sem hefur komið fram í umræðunni sem er aukið aðgengi, aukin neysla. Það hefur meðal annars komið fram í skýrslu að þegar bjórinn var leyfður hér 1989 jókst neysla í lítrum talið en viðlíka aukning í alkóhóllítrum er ekki sú sama, heldur þvert á móti. Það er nánast sama neysla í alkóhóllítrum en um 480% aukning í lítrum.

Menning hlýtur eitthvað að hafa um neysluna að segja. Hv. þingmaður kom í sinni fínu ræðu inn á þátt menningar í þessu. Getum við verið sammála um að þann þátt þurfi að skoða betur?