145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:41]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í flugvélum er okkur sagt að setja súrefnisgrímuna fyrst á okkur áður en við setjum hana á barnið við hliðina á okkur eða aðstoðum barn sem er með okkur á ferð til að geta aðstoðað barnið og til þess að geta verið til staðar.

Þingmaðurinn kom inn á margbreytileika mannlegs eðlis og að starf ríkisins væri að grípa inn í hjá þeim sem lenda inn á óæskilegar brautir. Þá er það kannski spurning hvort við þurfum ekki að ræða það sem getur hjálpað. Alveg eins og í bókinni Áfengi — engin venjuleg neysluvara sem við höfum mikið gluggað í í sambandi við þetta mál standa tíu leiðir upp úr til að draga úr skaðlegum áhrifum. Þetta eru leiðir til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Er þá ekki hlutverk ríkisins að nota þær leiðir, eins og aldurstakmarkanir við áfengiskaup, ríkiseinkasölu áfengis, takmarkanir á sölutíma og söludögum, fjölda sölustaða, áfengisskatta, (Forseti hringir.) stjórna þá verði og annað?