145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er við hæfi að það ólánsmál sem nú er komið aftur inn í sali Alþingis hafi fengið málsnúmerið 13 og að það skuli vera á þingskjali 13. Reyndar átti að taka það fyrir á 13. fundi Alþingis en það tókst ekki. Ég græt það ekki.

Að því slepptu er þetta mál alvarlegra nú en í fyrra. Hvers vegna? Vegna þess að við vitum meira núna, alla vega sá sem hér stendur, um afleiðingar þess að láta áfengi laust í matvörubúðir en við vissum í fyrra. Við erum búin að fá og fengum einnig í fyrra umsagnir frá ótal mörgum aðilum sem eru nánast allir sammála um að þetta sé slæmt skref, þetta sé skref sem við eigum ekki að stíga. Það er alveg sama hvort það er landlæknir, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðingar, Barnaheill, Félag íslenskra félagsráðgjafa, það eru allir sammála um að þetta sé skref sem við eigum ekki að taka.

Hér segir til dæmis í einni umsögn sem ég tek nánast af handahófi, umsögn Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd um frumvarpið sem fram kom í fyrra, með leyfi forseta:

„Með þessu frumvarpi er einnig gengið gegn þeirri velferðarstefnu sem öll Norðurlöndin hafa fylkt sér um og er fjölmörgum ríkjum fyrirmynd í stefnumörkun um stýrt aðgengi að áfengi og öðrum vímuefnum.“

Þetta er bara ein umsögn. Þær eru eiginlega allar á sömu lund nema frá nokkrum hagsmunaaðilum, t.d. Sambandi ungra sjálfstæðismanna með mikilli virðingu fyrir þeim félagsskap. Nánast allir aðrir vara okkur við því að stíga þetta skref.

Landlæknir segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Á grundvelli bestu fáanlegra gagna og við skoðun á niðurstöðum rannsókna og ráðlegginga frá m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um aðgerðir í áfengismálum er takmarkað aðgengi að áfengi ein skilvirkasta leiðin til að sporna við aukinni áfengisneyslu og um leið að draga úr þeim skaða sem getur hlotist af áfengisneyslu. Endurspeglast þessi afstaða stofnunarinnar m.a. í stefnumörkun hennar til ársins 2020 undir heitinu Heilsa 2020.

Hér segir líka, herra forseti, í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að hún leggi til fimm atriði sem þjóðir fylgi til þess að reyna að koma í veg fyrir óæskileg og óendurkræf áhrif af neyslu áfengis. Þau eru: að halda sölu áfengis, annaðhvort gera hana leyfisskylda eða selja hana á vegum opinberra aðila, að hafa hemil á fjölda og staðsetningu þeirra söluaðila sem selja áfengi, að setja í reglur hversu lengi afgreiðslutími varir, þ.e. hvern dag í viku, að setja skynsamlegan lágmarksaldur þeirra sem „mega neyta áfengis“, að setja reglur um drykkju á opinberum stöðum. Fimm atriði.

Ég gæti haldið áfram mjög lengi að tala hér um lýðheilsuþáttinn í þessu máli. Það er búið að gera það mjög vel í dag. Menn hafa sagt að við sem tölum á móti þessu máli séum svolítið föst í því að tala um lýðheilsu en við tölum ekki nógu mikið um fjárbindingu ríkisins af þessari starfsemi. Fjárbinding ríkisins af þessari starfsemi er, með mikilli virðingu, bara kanill, 6 milljarðar, segja menn. Ef ÁTVR yrði auglýst til sölu á morgun á 6 milljarða mundi ég örugglega gera tilboð, alveg klárlega. Þessir 6 milljarðar eru fjögurra ára arður í ríkissjóð. Það eru öll ósköpin. Hversu lengi duga 6 milljarðar til að takast á við afleiðingar þess að hér aukist áfengisneysla á mann um 4 l af hreinum vínandi á ári? Hversu lengi? Hvað ætli þeir dugi fyrir margar lifrarígræðslur? Hvað ætli þeir dugi fyrir marga hjartauppskurði? Hvað ætli þeir dugi fyrir mikið af lyfjum gegn sykursýki? Krabbameinin öll sem talin eru upp í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru hrollvekjandi lestur, krabbamein frá munni og alveg niður í endaþarm. Brjóstakrabbamein hjá konum eykst verulega af aukinni áfengisneyslu. Það er einmitt talað um það í þessari skýrslu að núna sé áfengisneysla helst að aukast í heiminum meðal kvenna. Það er næsta víst að sýnileg aukin áfengisneysla — það þarf ekki að fara um það orðum vegna þess að það kemur fram á svo mörgum stöðum í þeim umsögnum sem hér hafa komið, þ.e. ef áfengissölu yrði sleppt lausri í matvöruverslanir — mundi væntanlega fyrst og fremst koma niður hjá konunum. Ég tel það næsta víst.

Núna er talið að um 7,6% dauðsfalla karlmanna á aldrinum 15–59 ára á heimsvísu stafi af áfengisneyslu eða áfengistengdum sjúkdómum. Þetta hlutfall er nú 4% hjá konum. En síðan af því að mönnum hefur orðið tíðrætt um hvað það sé ríkinu dýrt að selja áfengi þá er það hreinasta firra. Hér segir á bls. 9 í greinargerð:

„Gera má ráð fyrir að sala á tóbaki standi undir um þriðjungi af rekstrartekjum ÁTVR og að stór hluti 1,5 milljarða kr. arðgreiðslu ÁTVR í ríkissjóð komi til vegna tóbakssölu.“

Þetta er reyndar hvergi rökstutt. En síðan kemur þessi dásamlega setning:

„Sú spurning verður sérstaklega áleitin í ljósi þess að einkarekstur er jafnan hagkvæmari en opinber rekstur.“ — Dásamlegt.

Nú verður mér hugsað til eftirlitsiðnaðarins sem var einkavæddur hér fyrir nokkrum árum. Allar blessuðu verkfræðistofurnar, með mikilli virðingu, sem selja nú ríkinu nota bene þjónustu sem ríkið hafði sjálft á hendi áður. Hvað ætli sé mikil hagkvæmni þar?

Ég eyddi dálitlum tíma í það í ræðu minn í fyrra að tala um hverjir mundu hagnast á þessu frumvarpi og ég taldi upp þá sem mundu ekki hagnast á því, þ.e. ungt fólk, fjölskyldufólk, þá sem eru veikir fyrir víni o.fl. Ég fann tvo aðila sem gætu hagnast á þessu, þ.e. stóru verslunarkeðjurnar sem ráða öllu hérna. Þá segi ég aftur: Eigum við á Alþingi að afhenda þremur keðjum sem hafa 90% af smásölumarkaðnum allt í einu 10% veltuaukningu ofan á það sem þær selja í dag? 25 milljarða ofan á þá 220 milljarða sem þær selja fyrir í dag? Þetta mundi náttúrlega stúta öllum smákaupmönnum í landinu, á fyrsta degi. Þá kemur fullyrðingin um að þetta komi á einhvern hátt landsbyggðinni til góða, að menn muni allt í einu rjúka til og setja upp áfengisútsölu á Kópaskeri með 140 tegundum, einkaaðili. Mér þætti gaman að sjá það, eins og stendur í kvæðinu. Ég held að þetta sé algjör firra.

Flutningsmaður þessa frumvarps sagði í upphafsorðum sínum í morgun að fólkið í landinu treysti okkur ekki. Það er alveg rétt hjá honum, fólkið í landinu treystir okkur ekki. Það er mjög miður. Skyldi fólkið í landinu ekki treysta okkur af því að það sér þessa forgangsröðun, að við erum að ræða hér að setja áfengi í matvörubúðir og setjum það í forgang á þinginu? Gæti verið að það sé þess vegna sem fólkið í landinu treystir okkur ekki? Það kæmi mér ekkert á óvart.

Svo segir í 21. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Útsöluverð á áfengi er frjálst en óheimilt er að selja áfengi undir kostnaðarverði.“ — Svo mörg voru þau orð.

Það var kannski þess vegna sem fulltrúar verslunarinnar sem komu á nefndarfund í fyrra gátu ekki svarað því þegar þeir voru spurðir að því beint hvort þeir mundu sætta sig við sömu álagningu í heildsölu og smásölu og ÁTVR. Þeir gátu ekki svarað því.

Eitt í viðbót sem kom frá Samtökum iðnaðarins í fyrra. Því hefur verið haldið fram, og ég hef meðal annars haldið því fram og menn hafa blásið á það, að innheimta áfengisgjalda verði erfiðari og torsóttari fyrir ríkissjóð eftir þessa breytingu. Hvað segja Samtök iðnaðarins? Það er nauðsynlegt að breyta greiðslu á áfengisgjaldi vegna þess að við sem innheimtum það, þ.e. verslunin, getum ekki fjármagnað þetta þannig að það þarf að setja gjaldið í sömu kategóríu og virðisaukaskatt, þ.e. að skila áfengisgjaldi einu sinni á tveggja mánaða fresti. Hvernig er þetta í dag? ÁTVR skilar áfengisgjaldi í ríkissjóð tvisvar í mánuði, upp á dag, upp á klukkutíma. Þetta eru engir smáaurar, þetta eru nokkur hundruð milljónir á mánuði. Á þá ríkissjóður að minnka fjárstreymi sitt um nokkur hundruð milljónir á mánuði af því að það er svo erfitt fyrir kaupmenn að innheimta áfengisgjald og standa skil á því nema á tveggja mánaða fresti? Þau eru öll að koma fram varnaðarorðin sem margir höfðu hér uppi í fyrra, þar á meðal sá sem hér stendur.

Slæmt var þetta mál í fyrra en það er enn verra nú. Ég segi það satt, af því að talað var um það hér í morgun að þessi umræða yrði og væri á tilfinninganótum, að ég er algjörlega tilfinningalaus í þessu máli, alveg ískaldur. Ég reyni að vera það í öllum málum sem ég tek afstöðu til á þessum stað. Ég velti fyrir mér þeim möguleikum sem eru í stöðunni, þeim umsögnum sem koma um málin og tek ákvörðun eftir það. Í þessu máli eru engar tilfinningar, ekki nokkrar. Þetta snýst einfaldlega um það hvort við viljum fórna hér lýðheilsumarkmiðum og þetta snýst um það hvort við viljum hækka vöruverð. Þá kemur spurningin um frelsið, að hafa frelsi. Þá segir maður: Frelsi fyrir hverja? Á öðrum vængnum eru nokkrir kaupmenn sem munu hafa frelsi til þess að selja áfengi og hagnast vel á því. Hverjir eru hinum megin? Það eru börnin í landinu, það eru ungmennin. Það er búið að tala mikið um að unglingadrykkja sé minnst hér á landi af mörgum löndum. Það er alveg hárrétt, við erum mjög heppin. Þetta kemur í kjölfarið á því átaki sem var gert hér í kringum aldamótin síðustu. Svo er aftur á móti önnur drykkja á Íslandi sem er mikið vandamál, það er öldungadrykkja, hún fer vaxandi. Bæði fólk á miðjum aldri og á mínum aldri fyllir móttökuna hjá SÁÁ á hverjum einasta morgni af því að það höndlar ekki áfengi og þeir sem eru enn eldri, heimahlynning segir að því miður sé aldrað fólk oft ofurölvi þegar komið er til þess. Þetta er oft og tíðum fólk sem hefur byrjað að drekka mjög seint á ævinni þannig að þetta er vaxandi vandamál.

Eftir að hafa fengið allar þessar umsagnir — það er til dæmis mjög glögg umsögn um hvað gerðist í Póllandi þegar menn fóru með áfengi þaðan út úr ríkisbúðum í almennar verslanir. Það sem gerðist þar var í stuttu máli að neyslan stórjókst, tekjur ríkisins minnkuðu, glæpum fjölgaði og sjúkdómum fjölgaði. Mjög einfalt. Hér er líka ágætisgreinargerð um hvað gerðist þegar Svíar tóku öl úr matvöruverslunum. Drykkja minnkaði þegar. Hér segir, með leyfi forseta:

„Áfengisneysla einstaklings var 8% minni árið 1979 miðað við árið 1977“ þegar bjór var tekinn úr búðum.

„Dauðsföll og veikindi af völdum áfengisneyslu minnkaði umtalsvert á árunum 1978–1984, sérstaklega meðal ungmenna.“

„Tíðni skorpulifur var sérstaklega há yfir tímabilið sem miðlungssterkur bjór var leyfður í matvöruverslunum.“

Hvað gerðist eftir 1977? Umferðarslysum fækkaði um 15% meðal 10–19 ára, 39–40 ára og 60+ eftir að bjórinn var tekinn þaðan út. Hvað ætlum við að gera með þetta? Í alvöru. Ef snúið verði við aftur þá segja menn: Við erum búnir að búa til líkan, aukning um 1 l af alkóhóli í áfengisneyslu mundi auka tíðni dauðsfalla vegna áfengisneyslu um 9,5% í Noregi og 9,7% í Svíþjóð. Við erum að ganga hérna út í eitthvað sem mundi auka neysluna um 4 l á mann á ári.

Ég segir sannarlega, herra forseti, eftir þetta og ég mun koma inn á það í fleiri ræðum að þetta (Forseti hringir.) ólánsskref er ekki verjandi að taka.