145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:08]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Þingmaðurinn kom í ræðu sinni inn á lífsstílssjúkdóma og þá aukningu sem talin er að verði í þeim og þá helst hjá konum. Rannsóknir hafa sýnt að aukningin verði einna helst hjá heimavinnandi húsmæðrum, þeim sem versla fyrir heimilið, fara í verslunina og sækja aðföngin.

Ég sá úttekt á kostnaðarþáttum sem tengjast áfengisneyslu, m.a. heilbrigðisþjónustu, félagslegri umönnun, afbrotum, ölvunarakstri og vinnutapi. Þessir kostnaðarliðir mundu koma á ríkið og svo eru kostnaðarliðir sem erfitt er að meta, þ.e. þjáning, dauðsföll og annað út af of mikilli neyslu áfengis. Telur þingmaðurinn réttlætanlegt að greiða frekar fyrir þá kostnaðarþætti sem tengjast áfengisneyslu en kostnað við rekstur á ÁTVR?