145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Ég hef sagt það og sagði í ræðu minni áðan að kostnaðurinn við rekstur ÁTVR er ekki meiri en svo að ÁTVR skilar 1,5 milljörðum á ári í arð inn í ríkissjóð, t.d. á þessu ári. Auðvitað dugar það hvergi til að greiða fyrir afleiðingarnar af áfengisneyslu, þ.e. meðferðarúrræði til að lækna sjúkdóma sem fylgja áfengisneyslunni. Þess vegna finnst mér í meira lagi mikill galskapur að sleppa þó þeim tekjum sem við fáum sannarlega fyrir sölu áfengis inn í ríkiskassann, að afsala okkur þeim tekjum og standa frammi fyrir miklu stærra vandamáli en við gerum eins og ástandið er í dag. Að því leyti til finnst mér það alls ekki rétt eins og kom fram hjá mér áðan.