145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:45]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hún fór yfir þessi mál. Hún sló reyndar svolítið vopnin úr höndunum á mér þegar hún fór að tala um áfengisstefnuna því að mig langaði svolítið að ræða hana vegna þess að hún er eitt af því sem hefur slegið mig mest við þetta mál, fyrir utan að það er búið að leggja það fram á undanförnum þingum, ég veit ekki hvað oft, og það hefur aldrei verið samþykkt. Maður veltir fyrir sér hvers vegna í ósköpunum, ef þetta er svona mikilvægt mál, það hefur ekki verið samþykkt.

Það sem mig langaði líka til að spyrja hv. þingmann er — nú hefur maður verið að velta þessum málum dálítið mikið fyrir sér eftir að þetta frumvarp kom fyrst fram á þessu þingi — að alls staðar í kringum okkur í Evrópu er verið að vinna markvisst að því að takmarka aðgengi, banna auglýsingar og leggja gríðarlega vinnu í að takast á við áfengisvandann sem er gríðarlegur um allan heim og ekki síst í Evrópu. Finnst henni ekki skjóta svolítið skökku við að við Íslendingar, sem höfum náð ágætisárangri hvað varðar áfengi, séum að ræða svona frumvarp?