145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:47]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við sláum okkur svolítið mikið á brjóst og segjum að við höfum náð ágætisárangri. Það er alveg staðreynd að við höfum minnkað áfengisdrykkju unglinga og við höfum náð árangri í því, en ég hef tekið eftir því og ég fylgist mjög vel með því, drekk reyndar ekki sjálfur, er óvirkur alkóhólisti, að síðan við leyfðum bjórinn þá hefur áfengisneysla aukist alveg gríðarlega á Íslandi hvað varðar magn. Við drekkum reyndar öðruvísi. Við erum farin að drekka meiri bjór. Ég hef tekið eftir því þegar ég hef farið inn á pöbba að horfa á fótboltaleiki ásamt öðru, að þangað koma menn keyrandi á bílum, drekka þrjá, fjóra bjóra og keyra svo í burtu. Það segir manni að þessi breyting, þótt mynstrið sé öðruvísi, hafi valdið því að við keyrum meira undir áhrifum áfengis. Það er bara tímaspursmál hvenær verður skelfilegt slys af þeim völdum, sem við lesum um í blöðum.

Ég segi að áfengisstefnan sem var samþykkt 2013 — við erum engan veginn að fara eftir henni hérna, a.m.k. ekki (Forseti hringir.) ef við samþykkjum þetta frumvarp.