145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:54]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, forvarnir spila auðvitað stóran þátt þótt þær séu ekki það sem fólk horfir mest til til að sporna við vandanum. Ég er sammála um samstarf heimilis og skóla. Ég fékk einmitt veður af því um daginn að nemendur í ákveðnum skóla ákváðu sjálfir að fara í huldar heimsóknir í áfengisverslanir og sjoppur, annars vegar til að reyna að kaupa og nálgast áfengi og hins vegar tóbak. Útkoman úr þeirri félagslegu rannsókn nemenda, sem var gerð í tíma í skóla, var að í hvert einasta skipti sem nemendurnir fóru inn í verslun ÁTVR og báðu um afgreiðslu á áfengi voru þau spurð um skilríki og/eða vísað út. Hins vegar hvað varðar tóbakið var þeim boðin afgreiðsla. Þau afþökkuðu þá afgreiðsluna, fóru út, kennarinn fór inn og lét starfsmanninn vita af könnuninni sem var í gangi. Þarna sjáum við vöru sem er til sölu og ungmenni eru oft að selja, (Forseti hringir.) og þá kemur aftur upp umræðan um 18 ára aldurstakmarkið, og svo er það hin (Forseti hringir.) samfélagslega ábyrgð ÁTVR.