145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þarna setti forseti mig alveg út af laginu eitt augnablik. Ég hélt skyndilega að hæstv. forseti ætlaði bara að fresta fundi og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, en ég er glöð að ég get fengið að taka til máls. Við ræðum hér frumvarp til laga sem gengur út á afnám einkasölu ríkisins á áfengi, frumvarp sem stundum hefur í hálfkæringi gengið undir nafninu „Brennivín í búðir“, sem lýsir ágætlega megininntaki þess.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason, fyrsti flutningsmaður og framsögumaður frumvarpsins, sagði í framsöguræðu sinni fyrr í dag að áfengi væri engin venjuleg neysluvara. Ég er því alveg hjartanlega sammála. Ég fæ þessa fullyrðingu hv. þingmanns hins vegar ekki alveg til að stemma við það sem lesa má í greinargerð þeirri sem fylgir frumvarpinu því að þar eru á mörgum stöðum færð rök fyrir því sjónarmiði að áfengi sé einmitt venjuleg neysluvara. Mig langar að taka nokkur dæmi upp úr greinargerðinni því að mér finnst það skipta alveg gríðarmiklu máli í allri umræðu um frumvarpið.

Í greinargerð með frumvarpinu segir á bls. 6, með leyfi hæstv. forseta:

„Frumvarpið felur í sér aukið frelsi til smásölu á Íslandi en það er ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu heldur að setja reglur um hana og hafa eftirlit með henni ef nauðsyn þykir. Hlutverk einkaaðila er að selja vörur og þjónustu í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld hafa sett. Þetta sjónarmið á við um áfengi og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur.“

Hér er strax gefinn tónninn og ég vil segja í upphafi að þessu er ég algjörlega ósammála.

Á bls. 9 í frumvarpinu er millifyrirsögn, en hún hljómar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kostir þess að selja áfengi með annarri neysluvöru.“

Á bls. 10 eru tvær tilvísanir í neysluvöru. Þar segir annars vegar, með leyfi hæstv. forseta:

„Í ljósi framangreinds má halda því fram að aukið frelsi í smásölu áfengis muni jafna stöðu verslana um landið allt og veita kaupmanninum á horninu betri tök á að taka þátt í samkeppni um viðskipti. Þótt honum kunni að reynast erfitt að keppa beinlínis í verðlagningu á áfengi, þá getur hann boðið upp á minni fyrirhöfn og sparnað þar sem viðskiptavinirnir þurfa ekki lengur að leggja í ferðalag til þess að nálgast neysluvörur.“

Það er reyndar fleira í þessari setningu sem ég er ósammála og ég kem kannski inn á það seinna í ræðu minni, en ég verð nú að viðurkenna að síðasta tilvitnunin í þessa greinargerð sem ég ætla að koma með er eiginlega í uppáhaldi hjá mér vegna þess hversu absúrd hún er.

Með leyfi hæstv. forseta segir hér á bls. 10 í kafla sem heitir „Fyrirkomulag smásölu áfengis líkist fyrirkomulagi smásölu neysluvöru“. Þar segir:

„Áfengi er almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri.“

Það finnst mér alveg ótrúlegt og á þessu sést hvað vel hversu ólíka sýn eða nálgun við höfum á þetta mál, ég og sá eða sú sem samdi þessa ágætu greinargerð.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nota ræðutímann minn í til þess að fara yfir hér og sem mér finnast skipta máli í þessari umræðu. Ég ætla ekki að segja að mér finnist þau öll vega jafn þungt en mér finnast þau öll skipta máli og vil þess vegna reyna að tæpa á þeim öllum. Þar vil ég nefna lýðheilsusjónarmið sem ég held að séu gríðarlega mikilvæg þegar við ræðum um áfengi. En það eru fleiri þættir sem mér finnast skipta máli. Það eru þættir eins og það sem hér hefur verið kallað frelsi, sem ég vil nú segja að snúist frekar um verslunarfrelsi, og svo byggðasjónarmið.

Ég ætla þá að byrja á lýðheilsumálunum. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason sagði í framsöguræðu sinni áðan að hann hefði ekki séð þær rannsóknir sem heimfæra mætti á íslenskan veruleika. Ég veit eiginlega ekki hvað hv. þingmaður á við með því og átta mig ekki alveg á hvaða lögmálum íslenskt samfélag lýtur sem ekki eiga við um önnur norræn ríki eða önnur vestræn ríki. Mig langar að fara aðeins í gegnum það. Máli mínu til stuðnings ætla ég að nota umsögn frá landlæknisembættinu sem barst okkur á síðasta þingi, því að líkt og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson gat um í ræðu sinni áðan er þetta mál ekki flutt hér í fyrsta sinn, það fékk ansi góða umræðu á síðasta þingi. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við erum í dapurlegri stöðu þegar við ræðum þetta mál núna og það er leitt að það sé aftur komið á dagskrá vegna þess að fyrir liggur svo mikið af gögnum sem byggja má á sem ég tel að ætti í raun að ýta þessu máli strax út af borðinu. Þar vil ég fyrst nefna skaðleg áhrif áfengisneyslu og það mikla lýðheilsuvandamál sem af henni hlýst. Embætti landlæknis segir það fullum fetum að aðgerðir sem miði að því að auka aðgengi að áfengi geti haft mjög skaðleg áhrif á heilsu landsmanna, bæði til lengri tíma og skemmri litið með tilheyrandi kostnaði sem leggst þá á samfélagið.

Það er ekki bara embætti landlæknis hér á Íslandi sem er á þeirri skoðun því að fram kemur í umsögninni að landlæknisembættinu hafi borist bréf frá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar hún lýsir yfir áhyggjum af mögulegum afleiðingum þess ef einkasala ríkisins á áfengi verður aflögð. Það er því ekki bara eitthvert séríslenskt fyrirbrigði að hafa áhyggjur af þessum málum. Ég vil nota tækifærið og þakka landlæknisembættinu fyrir þá góðu samantekt sem það gerði og er aðgengileg öllum á vef Alþingis undir þessu máli, þ.e. frá málinu í fyrra, þar sem búið er að taka saman fjölmargar rannsóknarskýrslur um áfengismál. Ég hefði nú talið að hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefði átt að vera búinn að kynna sér þær þegar hann fór að tala um að hann hefði ekki séð neinar rannsóknir sem heimfæra mætti á íslenskan veruleika. Þar kemur m.a. fram að Ísland, Noregur, Finnland og Svíþjóð hafi ströngustu löggjöfina í Evrópu varðandi sölu áfengis og að jákvæð tengsl séu á milli strangrar áfengislöggjafar og áfengisneyslu. Einnig er bent á að Noregur, Finnland og Svíþjóð raði sér öll neðarlega á listann yfir drykkju ungmenna þar sem ungmennadrykkja þar er lítil, en í Danmörku, þar sem nálgast má áfenga drykki á auðveldan hátt, ekki síst bjór, er ungmennadrykkja með því mesta sem gerist í Evrópu. Þar er einnig vísað í að ríkisrekstur á sölu áfengis stuðli að minni skaðsemi en ef salan er gefin frjáls og þannig mætti lengi telja. Það er heljarinnar langur listi sem landlæknisembættið er búið að taka saman og þar kemur einnig fram að áætlaðar tekjur af nýju áfengissölukerfi séu oft blásnar upp. Það sé ekki tekið tillit til reynslu annarra af einkavæðingu á áfengissölu, að rekstrarkostnaður núverandi kerfis sé oft ofmetinn og að þarna sé verið að vísa í bandarískar rannsóknir.

Það er til hellingur um þessi mál en ég sé að það saxast á tímann hjá mér. Ég sagði hér í upphafi að það væri fleira en bara lýðheilsumálin sem að mér fyndist skipta máli í þessari umræðu. Mig langar því að tæpa á þeim því að áfengi er löglegt og leyfilegt og ég er alla vega á þeirri skoðun í dag að svo eigi að vera áfram þó svo að ýmis vandamál fylgi áfengi. Það kann vel að vera að einhvern tímann í framtíðinni breytist viðhorf mitt, en svona er það alla vega í dag og þess vegna finnst mér að við þurfum að taka inn fleiri sjónarmið.

Mig langar að nefna byggðasjónarmiðin. Fram kemur í góðri umsögn frá minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar frá síðasta þingi að flestir gestanna sem komu á fund hv. efnahags- viðskiptanefndar töldu að úrvalið sem fólki stæði til boða mundi minnka eða yrði minna á landsbyggðinni en í sérverslunum á þéttbýlisstöðum. Og vegna þess að ég vil ekki bara hugsa um áfengi í drukknu magni heldur líka út frá gæðum finnst mér það vera atriði sem við eigum að líta til.

Af því að tíminn er næstum búinn og dálítið hefur verið talað um frelsi, verslunarfrelsi, spyr ég: Frelsi hverra? Ég held að þetta frumvarp muni bara styrkja eða styðja við nokkrar stórar verslunarkeðjur á landinu. Við höfum upplifað mikla byltingu í rekstri smábrugghúsa á síðustu árum sem hafa t.d. aukið atvinnumöguleika í landinu og fólk hefur búið sér til vinnu með þess konar starfsemi, en ég tel að þetta frumvarp, verði það að lögum, muni algjörlega kippa fótunum undan rekstri hinna litlu brugghúsa. (Forseti hringir.) Stóru framleiðendurnir, (Forseti hringir.) eins og Ölgerðin og Vífilfell, munu örugglega halda sjó í nýju kerfi en ég held að litlu brugghúsin muni ekki geta það. Mér sýnist ég þurfa að koma upp í seinni ræðu og fjalla nánar um þau.