145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:20]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hv. þingmaður fór vel í gegnum frumvarpið og þá túlkun að áfengi væri neysluvara, eins og virðist vera gegnumgangandi í greinargerðinni. Búið er að setja áfengi inn í viðskiptaumhverfi og umhverfi okkar almennt. Það er alveg hægt að segja að það sé efnahagslega mikilvægt fyrir ýmsa aðila og ýmis lönd að hafa áfengi, en afleiðingar af áfengissölu eru samfélaginu mjög dýrkeyptar, eins og við höfum talið upp í þessu púlti í dag. Þær varða heilbrigðisþjónustuna, félagslega umönnun, afbrot, ölvunarakstur og vinnutap, líkamlegt, andlegt og félagslegt tjón.

Hv. þingmaður fór vel í gegnum frumvarpið og er greinilega búin að lesa það vel. Ég las það sem haft er eftir hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, sem er framsögumaður málsins og 1. flutningsmaður þess, þegar hann var spurður um hvort afleiðingarnar af frumvarpinu gætu ekki orðið alvarlegar og langvarandi o.s.frv. Þá sagði hann að áhrif frumvarpsins væru öll þannig að þau mundu jafnast út á mjög stuttum tíma.

Getur hv. þingmaður á einhvern hátt verið sammála hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni um að afleiðingarnar sem við höfum talið hér upp eigi eftir að jafnast út á skjótum tíma?