145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli við verðum ekki bara að vera ósammála um það í bili. Mig langaði líka að spyrja hv. þingmann aðeins út í orð hans um frelsið. Hv. þingmaður spurði út í það orðalag að þetta væri til þess að auka frelsi, og spyr: Auka frelsi hvers og hverra? Gagnrýnendur frumvarpsins hafa tilhneigingu til að tala aðallega um viðskiptafrelsið. Fyrirgefðu, virðulegi forseti, nú er flissað svo mikið úti í sal, ég smitast. En ég vil meina að þarna sé líka spurning um frelsi neytandans.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki fallist á að það sé spurning um frelsi. Segjum sem svo að neytandi sem kemur á samkomu kl. 9 að kvöldi á föstudegi, (Gripið fram í.) — áfengisneytandi, bara venjulegur áfengisneytandi — hafi þrjá til fjóra bjóra með sér, það er ekkert yfirgengilega mikið fyrir flest fólk, og drekki þá. Nema hvað, samkoman heldur áfram og það er þessi ljómandi stemmning — þetta er hluti af menningu okkar eins og hv. þingmaður bendir réttilega á — en hann getur ekki fengið sér meira. Þá þarf að draga alla niður í bæ eða út á pöbbinn eða eitthvað álíka, eða taka meira með sér á samkomuna, sem er það sem margir gera, ýmist meira af bjór eða hafa með sér vodkapela til öryggis; þetta er líka hluti af menningunni okkar og er til komið vegna þess að við erum með þessar takmarkanir.

Þegar ég bjó í Manitoba, Winnipeg nánar tiltekið, þá kom fólk með örfáa bjóra í partíið vegna þess að það voru bjórbúðir sem seldu bjór og þær voru opnar til eitt eða tvö á næturnar. Ef stemmningin hélt áfram — þessi menningarlegi hluti sem við viljum væntanlega rækta í sambandi við áfengi — þá var hægt að ná sér í aðeins meira, ekki alveg heilan vodkapela, en smá. Er þetta ekki frelsisspurning? Er þetta ekki spurning um hvaða val einstaklingurinn hefur í leit sinni að hamingjunni í okkar annars ágætu menningu þegar kemur að áfengisneyslu?