145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í sínum ágætu vangaveltum hér að við stjórnuðum ekki gildismati og löngunum almennings, við ættum ekki að gera það og gerðum það ekki. Ég er ekki alveg sannfærður um að þetta sé með öllu rétt vegna þess að sú umgjörð sem við sköpum þjóðfélaginu með lögum, reglum og siðvenjum, sem hér verða til og við tökum öll þátt í að mynda, hefur áhrif á langanir okkar. Ég var líka reykingamaður eins og hv. þingmaður á sínum tíma. Mig langaði oft til að reykja en mig langaði ekki til að reykja í bíó, leikhúsi, skólastofu eða í kirkju vegna þess að ég var ekki vanur því að tengja veru mína þar við tóbaksneyslu. Síðan hefur það gerst á vinnustöðum líka að tóbakinu hefur verið (Forseti hringir.) úthýst.

Ég vil byrja á því í mínu fyrra andsvari að andmæla þeirri skoðun þingmannsins (Forseti hringir.) að lagaumhverfið, regluumhverfi og siðvenjur okkar (Forseti hringir.) hafi ekki áhrif á langanir okkar.