145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get vissulega tekið undir að umhverfi og reglur og svoleiðis geti haft áhrif, en punktur minn með þeirri orðræðu var að undirstrika að lýðheilsurökin væru ekki tromprök. Þau eru ekki eitthvað sem við getum alltaf notað, þ.e. ef eitthvað er óhollt þá sjálfkrafa sigri það sjónarmið einhvern veginn, vegna þess að fólk vill gera hluti sem eru óhollir og óskynsamlegir. Fullt af frábærum hlutum gerast vegna þess að fólk gerir óskynsamlega hluti. Tónlist er gott dæmi og ýmsar bókmenntir og ýmislegt fleira sem er kannski aðeins persónulegra eðlis þegar maður fer að tala um svoleiðis í pontu. Það er þannig. Samfélagið okkar er ekki búið til úr fínum, góðum, fallegum gildum og hefðum og hegðun, heldur vegna þess að samfélagið er í meginatriðum frjálst og fólk getur gert alls konar hluti sem eru ekkert endilega skynsamlegir til skemmri eða lengri tíma. Við getum ekki notað þá staðreynd að eitthvað sé óskynsamlegt sem (Forseti hringir.) tromprök alltaf í málflutning okkar þegar (Forseti hringir.) við ætlum að hanna umhverfið.