145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lifa í frjálsu samfélagi þar sem ég get farið mínu fram svo lengi sem ég skaða ekki aðra, en ég vil heldur ekki láta þröngva upp á mig kerfi sem ég er mjög andvígur eins og hv. þingmaður virðist tala fyrir. Hann vill meina mér og okkur sem erum á sama máli að hafa það fyrirkomulag sem lýðheilsuyfirvöld mæla með og alþjóðaheilbrigðisyfirvöld. Forræðishyggjumenn á þingi, og ég get alveg haldi því sjónarmiði fram, vilja taka þennan rétt af okkur til að framfylgja slíku regluverki. Það á í rauninni að taka þennan rétt af okkur. Ég frábið mér að okkur sé stillt upp eins og forræðishyggjufólki þegar þeir sem eru að þröngva þessum breytingum upp á okkur eru í reynd að gera nákvæmlega það sama. Og tala síðan um sölu á áfengi sem dópsölu — auðvitað er þetta vímuefni, en (Forseti hringir.) við erum flest á því máli að það eigi að heimila sölu (Forseti hringir.) á áfengi. Við viljum gera það á eins skynsamlegan máta og nokkur (Forseti hringir.) kostur er og til hagsbóta (Forseti hringir.) fyrir samfélagið en ekki fyrir Bónus og Hagkaup og þá sem eru að pressa á þessar breytingar.