145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get sagt hv. þingmanni allt um vímuefnastefnu Pírata. Hún snýst um það að hætta að refsa neytendum sem nota ólögleg vímuefni. Það er grunnurinn að öllu. Það er fyrsta skrefið. Síðan skulum við karpa um söluatriði og því um líkt. Það er í mínum huga ekki til umræðu, hvorki hjá Pírötum né annars staðar á þingi að mér vitandi. En það að við refsum fólki fyrir neyslu á ólöglegum vímuefnum er siðferðilega úti á túni og skilar ekki árangri í því að vernda réttindi þeirra. Það er hins vegar önnur umræða, virðulegi forseti. Það er hreinlega önnur umræða vegna þess að fyrirkomulagið gagnvart ólöglegum vímuefnum er ekki það sama og gagnvart áfengi. Það eru aðrar spurningar og frelsi í öðrum skilningi.

Þegar kemur að stefnu Pírata í þessu máli eigum við að spyrja okkur að því hver réttindi borgaranna séu. Það er ekki yfirlýst stefna Pírata að samþykkja þetta mál. Ég kem til með að greiða atkvæði með frumvarpinu, en ef koma fram röksemdir út frá grunnstefnu Pírata sem brjóta einhvern veginn í bága við það, þá skal ég taka mark á þeim rökum. En það er annað mál en spurningin um ólögleg vímuefni. Fyrir okkur er það ekki spurning um hver selur (Forseti hringir.) eða dreifir þeim eða hvort hér eigi að flæða áfengi eða ekki. Þegar kemur að ólöglegum vímuefnum þá á (Forseti hringir.) að hætta að refsa neytandanum.