145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er smáruglaður eftir ræðu hv. þingmanns, sem var mjög góð. Eitt af því sem Píratar leggja sig fram um, og er til mikillar fyrirmyndar, er að hlusta eftir almenningsálitinu. Þeir hafa meðal annars gert kannanir um vilja almennings hvað varðar útgjöld í fjárlögum.

Það er tvennt sem ég skil ekki í málflutningi hv. þingmanns. Í fyrsta lagi skil ég ekki það sem hann segir um lýðheilsu. Lýðheilsa er óbifanlegur hluti af heilbrigðiskerfinu sem kjósendur sögðu Pírötum og okkur öllum núna fyrir áramótin að væru höfuðatriði í fjárlagaumræðunni, sem er alveg rétt. Í öðru lagi hefur komið fram í könnun að meiri hluti þjóðarinnar, ríflegur meiri hluti, er andvígur þessari breytingu. Þá spyr ég: Eru Píratar hættir að hlusta á þjóðina eða er það bara í þessu máli sem þeir kjósa að hlusta ekki á þjóðina?