145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít þannig á að áfengissjúkdómur sé heilbrigðisvandamál og að hann sé sjúkdómur. Við glímum við þann vanda ásamt fjölda annarra heilbrigðissjúkdóma og ég tel að við séum ekki með forsjárhyggju gagnvart börnum heldur líka fullorðnu fólki þegar við hjálpum því að komast út úr erfiðleikum sínum og reyna að ná heilsu aftur, hvort sem það er áfengissjúkdómur eða einhver annar beitum við ýmsum ráðum sem heilbrigðisyfirvöld í þeim efnum. Þess vegna þurfum við að líka oft og tíðum, og gerum það í dag, að sýna forsjárhyggju með einum eða öðrum hætti. Hv. þm. talar um að hann og flokkur hans hlusti á málefnaleg rök og ég spyr: Af hverju taka þá hv. þingmaður og flokkur hans ekki mark á 23 aðildarsamtökum sem lögðu fram áskorun til okkar þingmanna? Þar segir, með leyfi forseta:

„Áfengisneysla er meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu, samanber mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Kostnaður samfélagsins vegna neyslu áfengis birtist víða, m.a. í heilbrigðiskerfinu, löggæslu- og dómskerfinu, tryggingakerfinu og atvinnulífinu svo dæmi séu nefnd. Að ógleymdum áhrifum á einstaklinga, fjölskyldur og nærsamfélag.“

Meðal annars á þeim forsendum telja þessir 23 aðilar, sem allir hafa beitt sér fyrir forvörnum varðandi áfengis- og vímuefni, að sú ákvörðun að setja áfengi í allar verslanir (Forseti hringir.) stríði gegn því sem (Forseti hringir.) þeir skilgreina þarna.