145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:30]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til þess að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem vakin er athygli á hagsmunum dreifðra byggða og smárra byggðarlaga og að þar sé tryggð sambærileg þjónusta og gildir á þéttbýlissvæðinu hér. Þetta hefur verið fróðleg umræða um frelsið og forræðishyggju o.s.frv., og hvort eigi að vega þyngra, lýðheilsa eða frelsi. Ýmis ummæli hafi fallið í þá veru að lýðheilsa annarra skipti okkur ekki eins miklu máli, það sé einstaklingurinn sem eigi að axla ábyrgð á sjálfum sér að öllu leyti.

Mér hefur þótt umræðan vera ansi mikið á forsendum frelsis markaðarins, markaðshyggjunnar. Í mínum huga er verið að svipta okkur sem samfélag frelsi til að hafa það fyrirkomulag sem við kjósum og sem meiri hluti landsmanna samkvæmt skoðanakönnunum óskar eftir. Hér koma fram kröfur um að kerfinu verði breytt þvert á þann almannavilja, þvert á óskir sem fram hafa komið frá lýðheilsusamtökum, æskulýðssamtökum og frá yfirvöldum og stofnunum sem hafa með þessi mál að gera samkvæmt lögum sem við höfum sett. Samfélagið með öðrum orðum kallar á eitt en markaðshyggjan og þeir sem telja sig geta grætt á breyttu fyrirkomulagi kalla á annað. Þetta kemur fram og hefur komið fram í umsögnum um þetta mál. Þar er annars vegar stóru verslunarkeðjurnar og hins vegar allt heilbrigðiskerfið nánast eins og það (Forseti hringir.) leggur sig. Þannig að ég kem hér fyrst (Forseti hringir.) og fremst upp til að þakka hv. þingmanni fyrir þær áherslur sem hún hefur sett.