145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur ágætisræðu. Hv. þingmaður kom meðal annars inn á opinbera áfengisstefnu sem er vel því að við eigum að vera mjög skýr þegar kemur að reglum og löggjöf varðandi meðferð þessarar vöru.

Hv. þingmaður ræddi meðal annars takmörkun á aðgengi. Í því frumvarpi sem við ræðum hér erum við fyrst og fremst að fjalla um breytt sölufyrirkomulag, þ.e. að afnema einokun ríkisins á sölu. Við erum ekki að hvika neitt frá öðrum takmörkunum og reglum sem gilda um söluna. Við erum fyrst og fremst að breyta fyrirkomulagi á því hvort það er almenn verslun og hún gefin frjáls eða einokun ríkisins. Ríkið á auðvitað að setja lög og hafa eftirlit með þessu og fara eftir sinni stefnu.

Ég sakna þess í umræðunni að ekki sé komið inn á fleiri þætti í opinberri áfengisstefnu. Ef við vísum til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem oft er gert í þessari umræðu, þá eru það tíu atriði sem talað er um þar. Í skýrslu sem oft er vitnað til, Áfengi – engin venjuleg neysluvara, er sölufyrirkomulagið aðeins einn þáttur af þessum tíu. Það eru fjölmargir aðrir þættir, eins og verð, skattar og viðurlög við ölvunarakstri, sem skipta miklu máli. Það er ekkert verið að hvika í því.

Er hv. þingmaður ekki sammála því að það sé ekkert hægt að fullyrða um þennan einstaka þátt, að hér fari allt á hvolf?