145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Skil ég það ekki rétt, hv. þingmaður, að með frumvarpinu sé verið að banna ríkinu að selja áfengi? Ég lít þannig á að verið sé að banna ríkinu að selja áfengi þó að sýnt hafi verið fram á að það sé hagstætt fyrir ríkið að hafa hlutina með þessum hætti og þó að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vísi til þess að það sé gott fyrir okkur sem þjóð að hafa þessa sjálfstæðu stefnu í áfengismálum.

Horfum aðeins til barna í þessum efnum. Mér finnst það gleymast að börn eru oftar en ekki fórnarlömb aukinnar áfengisneyslu. Nú stefnir í að börn fari með foreldrum sínum í stórverslanir að versla og foreldrar sem eru veikir fyrir hafa áfengi fyrir augunum og börnin líka. Nú, þar sem vín er selt í sérverslunum ÁTVR, er það alger undantekning að börn fari þangað inn með foreldrum sínum og það eru hömlur þar á.

En ef fyrirkomulaginu verður breytt þurfa foreldrar sem eru veikir fyrir víni og fara með börnin sín að versla venjulega dagvöru að hafa börnin sín með í áfengisverslun. Mér finnst mjög alvarlegt að verið sé að bjóða upp á slíkt. Umboðsmaður barna varar mjög við því, í sinni umsögn um þetta mál, að þetta sé haft með þessum hætti, að það sé verið að stilla upp þessari vöru fyrir framan foreldra sem eru með börnum sínum að versla í stórmörkuðum.