145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

afsláttur erlendra kröfuhafa slitabúa bankanna.

[13:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að ítreka þá fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra hvort hann vilji gangast fyrir því að gera opinberar allar forsendur afsláttarins sem hann hyggst veita erlendum kröfuhöfum áður en ákvörðun er tekin þar um. Það er bein spurning sem hæstv. forsætisráðherra hlýtur að geta svarað. Fyrst hæstv. forsætisráðherra getur komið hér og skensað aðra þingmenn um verðtrygginguna og umræður þar um finnst mér hann ætti að sýna manndóm til að verða við eðlilegum óskum þingmanna um málefnalega umræðu um það mikilvæga hagsmunamál. Hann horfði sjálfur í augun á þjóðinni fyrir síðustu kosningar og sagði að það væri enginn vandi að afnema verðtryggingu. Hann sagði reyndar líka að það væri enginn vandi að taka fullt af peningum af erlendum kröfuhöfum. En hann hefur ekki afnumið verðtryggingu og hann getur ekki komið hreint fram og sagt að hann vilji gera opinberar forsendurnar fyrir afslættinum sem hann er að fara að veita erlendum kröfuhöfum.