145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

störf nefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[13:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það fer vonandi að líða að því að einhver niðurstaða komi úr stjórnarskrárnefnd sem hæstv. forsætisráðherra skipaði. Mig langar að spyrja í ljósi þess að nú vill svo til að ég á sæti í nefnd sem innanríkisráðherra skipaði til að fara yfir lög um málefni útlendinga. Vinnunni er þannig háttað að þingmennirnir vinna að því að ná þverpólitískri sátt um hvað eigi að vera í lögunum og síðan skila þeir ásamt starfsmönnum ráðuneytisins þeirri vinnu til innanríkisráðherra, sem fer með málið fyrir ríkisstjórn og svo mun ráðherrann flytja málið á þinginu og það fer í eðlilegt þinglegt ferli.

Mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig það er með þessa tilteknu nefnd sem ráðherra skipaði, hvort það verði eins með hana og þá nefnd sem ég á sæti í, er lýtur að lögum um útlendingamál. Mun hæstv. forsætisráðherra flytja þessar stjórnarskrárbreytingar og kynna þær fyrir hæstv. ríkisstjórn?