145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

störf nefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[13:56]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg spurningu hv. þingmanns, þingmaðurinn getur ef til vill útlistað þetta aðeins betur í næstu fyrirspurn ef ég hef misskilið það. En það er rétt sem hv. þingmaður segir að nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar er langt komin í vinnu sinni við fyrsta áfanga og ég geri ráð fyrir að hún muni skila af sér áður en langt um líður og að við tökum þær tillögur þá til umræðu hér í þinginu. Er hv. þingmaður að spyrja hvort þetta verði lagt fram sem ríkisstjórnartillaga eða hvort þetta verði lagt fram af fulltrúum flokkanna? Ég hafði skilið það svo að þetta væri samstarfsverkefni flokkanna á Alþingi. (BirgJ: Þú skipaðir nefndina.) Ef hv. þingmaður er að mælast til þess að þetta verði lagt fram sem ríkisstjórnartillaga er með því verið að senda inn í nefndastarfið mjög skýr skilaboð um stefnubreytingu í þeirri vinnu sem þar hefur farið fram, svoleiðis að það verður áhugavert að heyra hv. þingmann útlista betur hvað hann átti við.