145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

ný stefna í ferðamálum.

[14:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Þá er fyrst til þess að taka hvar í stjórnkerfinu Stjórnstöð ferðamála er staðsett. Þá er það þannig að þetta er ekki stofnun heldur er þetta samráðs- og samstarfsvettvangur allra þeirra aðila sem að þessum verkefnum koma. Við sjáum það og hv. þingmaður þekkir það vel úr sínum fyrri störfum sem ráðherra ferðamála að ferðamálin eru sú atvinnugrein sem hefur kannski hvað víðasta skírskotun til samfélagsins. Fjölmörg ráðuneyti koma með beinum hætti að málefnum sem snerta ferðaþjónustuna, það gera einnig sveitarfélögin og svo er greinin sjálf líka mjög víðfeðm og hefur marga snertifleti. Það er þess vegna, í þeirri vinnu sem við lögðum af stað með og unnum í góðu samstarfi við atvinnugreinina sjálfa, við Samtök ferðaþjónustunnar sem eru samstarfsaðili okkar — verkefnið er kostað til helminga af Samtökum ferðaþjónustunnar, þ.e. greininni sjálfri og ríkinu, 70 milljónir hvor — að okkar niðurstaða verður sú að skapa þennan samráðsvettvang. Í stað þess að beina verkefnum sem heyra undir aðra aðila inn á stofnanir sem aðrir fara með, til að mynda þær stofnanir sem hv. þingmaður nefndi til sögunnar, Ferðamálastofu sem er stofnun sem heyrir undir mig, Íslandsstofu sem er stofnun sem heyrir undir hæstv. utanríkisráðherra o.s.frv., tökum við verkefnin fyrir ofan þann hefðbundna strúktúr og færum okkur sem berum ábyrgð á þessum málaflokkum saman þannig að við getum tekið þær ákvarðanir sem atvinnugreinina snerta sameiginlega og rætt þær án þess að festast í hinni (Forseti hringir.) hefðbundnu verkaskiptingu.

Varðandi aðrar spurningar þá mun ég taka þær í seinna svari mínu.