145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

ný stefna í ferðamálum.

[14:12]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það hefur þvert á móti verið lenska í þessu samhengi að kröftunum sé dreift of víða. Þess vegna erum við að setja á laggirnar þennan samstarfsvettvang sem hefur við borðið ábyrgðarmenn málaflokkanna. Ferðamálaráð, Ferðamálastofa og Íslandsstofa hafa öll mikilvægu hlutverki að gegna og munu sinna því áfram og við munum taka þau verkefni sem þar eru unnin og víðar í kerfinu, hvort sem það er hjá umhverfisráðherra, fjármálaráðherra, samgönguráðherra og/eða öðrum sveitarfélögum sem þarna koma að.

Varðandi framkvæmdastjórann þá er þetta samstarfsvettvangur ríkisins og greinarinnar eins og hér kom fram. Þá er því til að svara fyrst og síðast að það var vilji okkar að finna hentugan aðila til þess að láta þetta verkefni fara strax af stað og sú krafa kom ekki síður frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Ég verð að segja að það var meðal annars litið til þeirra fordæma sem voru sett á síðasta kjörtímabili í samstarfi (Forseti hringir.) ríkis og atvinnugreinarinnar í verkefni sem fyrirspyrjandi þekkir vel, þar sem stjórnarformaður Inspired by Iceland var ráðinn (Forseti hringir.) án auglýsingar og samningar við hann framlengdir ítrekað án auglýsingar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég breytti reyndar því verklagi og núna erum við með það innan húss, en það er sannarlega fordæmi sem litið var til í þessu samhengi.