145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ný lög um velferð dýra voru samþykkt við þinglok vorið 2013. Farið hafði fram mikil vinna og undirbúningur við vinnslu frumvarpsins í atvinnuveganefnd þar sem náðist þverpólitísk sátt um málið. Markmið dýravelferðarlaga er að stuðla að velferð dýra, að þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta og sársauka og geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Með lögunum fékk Matvælastofnun víðtækar heimildir við beitingu þvingunarúrræða þegar brotið er gegn ákvæðum laganna. Eftirlit hefur verið hjá Matvælastofnun frá 1. janúar 2014 og hún hefur þær ríku skyldur á herðum sínum að tryggja að lögum um dýravelferð sé fylgt eftir.

Slæmur aðbúnaður á svínabúum hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarið þar sem sýnt hefur verið fram á að mörg svín voru með legusár, básar of þröngir og svínin gátu ekki rétt úr fótunum og þar með var auðvitað reglugerð um meðferð dýra þverbrotin. Matvælastofnun hefur neitað að gefa upp um hvaða bú ræðir og því miður liggur öll greinin undir miklu ámæli þótt sem betur fer séu til bú sem tryggja velferð dýra sinna. Það er því mikilvægt að Matvælastofnun sinni eftirlitshlutverki sínu og framfylgi dýravelferðarlögum. Ljóst var við setningu laganna að svínabændur ásamt öðrum bændum þyrftu að fara í kostnaðarsamar breytingar á búum sínum til að uppfylla ný lög um dýravelferð og neytendur gera að sjálfsögðu þá kröfu til allra matvælaframleiðenda að lög um dýravelferð séu í hávegum höfð. Ég treysti því að íslenskir bændur leggi sig alla fram um að framfylgja dýravelferðarlögum og leggi metnað sinn í að koma í veg fyrir brot á þeim.