145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég harma það dýraníð sem hefur fengið að viðgangast hérlendis. Ég verð að segja að ég harma enn meira að einu viðbrögðin sem koma frá hæstv. ráðherra málaflokksins séu að hann harmi það. Það þarf að gera eitthvað. Ég legg svo til að allir þeir þingmenn sem láta sig málið varða hætti að borða svína- og kjúklingakjöt. Síðan ég byrjaði að vinna hérna hef ég beðið þingmenn, þegar komið hefur í ljós að verið var að klippa halann af grísunum, að huga að því að þeir væru hugsanlega að borða kjöt af dýrum sem hafa verið pynduð. Enginn hlustar á mig, ég er bara óþolandi grænmetisætan.

Mig langar að upplýsa um ástæðuna fyrir því að ég gerðist grænmetisæta. Hún er sú að ég gat ekki tekið þátt í því að stuðla að verksmiðjuframleiðslu á dýrum sem vitað var að væru pynduð. Þetta er ekkert nýmæli. Sem betur fer er þetta loksins að koma upp á yfirborðið og sem betur fer samþykkti Alþingi lög sem stuðla vonandi að bættri meðferð á dýrum.

Á meðan ástandið er þannig að maður veit ekki hvaða dýr eru pynduð og hvaða dýr eru ekki pynduð skil ég ekki hvernig fólk getur látið sér detta í hug að borða þetta kjöt og láta eins og ekkert sé. Það er ykkar, ykkar, ykkar, hæstv. forseti, sem skyldan hvílir á. Það er ykkar.

Ég spyr því hæstv. ráðherra málaflokksins hvort hann borði svína- og kjúklingakjöt.